148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:02]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 sem byggir á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar frá mars síðastliðnum. Þessi áætlun er rammi fyrir þá nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem lagt er til að fari fram hér á næstu árum. Það er óhætt að segja að hún endurspegli þær megináherslur sem ríkisstjórnin hefur nú þegar sett í heilbrigðismálum. Markmiðið um að allir landsmenn skuli eiga kost á góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er í anda norræna velferðarmódelsins. Það er réttlátt og sanngjarnt kerfi og að því ber að stefna.

Ein helsta áskorunin sem blasir við okkur núna er hækkandi lífaldur og öldrun þjóðarinnar með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðisþjónustuna utan sjúkrahúsa. Nauðsynlegt er að vinna að stefnumörkun innan heilbrigðisþjónustunnar og bregðast sem fyrst við svo að við getum tekist á við þetta stóra verkefni með fagmennsku að leiðarljósi.

Mönnun heilbrigðisþjónustunnar verður áfram ein af stærstu áskorunum á málefnasviðinu. Það á við um allt land. Heilbrigðisstofnanir fjarri höfuðborgarsvæðinu hafa átt í erfiðleikum með að fá heilbrigðisstarfsfólk til að starfa og nauðsynlegt er að leita allra ráða í þessari þróun.

Það þarf vart að taka það fram hve mikilvægt er að móta stefnu í svo mikilvægum málaflokki sem heilbrigðismálin eru, það er mikilvægt bæði fyrir lýðheilsu og bætta heilbrigðisþjónustu og sem forsendur fyrir góðri fjármálaáætlun sem við viljum að haldi. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í mönnunina. Við höfum verið að leysa þessi mál með verktakagreiðslu úti á landi. Ég spyr hvernig hún sjái það fyrir sér að leysa þessi mál, hvort fjármálaáætlunin feli það í sér að einhverju leyti og hvort þetta eigi að fara í menntun eða hvort aukið fjármagn fari í verktakagreiðslurnar.