148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég held að það sé rétt sem hún segir að við þurfum að segja þetta upphátt og ræða um þetta til þess að gera okkur grein fyrir hvernig málin standa og hvernig við getum tekið á þeim.

Það er ánægjulegt að sjá að staða ríkissjóðs er sterk eins og kemur fram í fjármálaáætlun og nægilegt svigrúm er fyrir hendi til að setja meiri fjármuni í samfélagsinnviði sem setið hafa á hakanum síðastliðið ár. Staðan er önnur núna og mikilvægt að horfa fram á við.

Fjárfesta á í verulegum innviðum í heilbrigðismálum og þar ber hæst byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, að auka eða fjölga hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum, bæta aðbúnað þeirra og rekstur svo um munar og létta þannig álaginu á Landspítalanum, enda löngu orðið tímabært. Á þessu ári hefjast framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna, en meginþungi þeirra verður frá 2020–2023 og ljóst er að drjúgur hluti af fjármunum sem ætlaðir eru í fjárfestingar á sjúkrahúsþjónustu, sem er 75 milljarðar kr., fer í byggingu nýs Landspítala. Hjá því verður ekki komist.

Ég ætla líka að nefna hér forvarnastarf og fagna því að efla eigi heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Tryggja þarf að öllum sjúkdómum verði gert jafn hátt undir höfði, bæði líkamlegum og andlegum. Það skiptir máli að gera átak í geðheilbrigðismálum og að byggt verði upp jafnt í öllum heilbrigðisumdæmum um landið. Þarna yrði stigið stórt skref í forvarnamálum sem skilar sér margfalt til baka.

Mig langar líka til að fagna auknum fjármunum í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun sem er mikið forvarnamál sem skiptir miklu máli.

Virðulegur forseti. Það má sjá í þessari fjármálaáætlun að einnig eigi að tryggja aðgengi að lyfjum jafnt á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega þar sem takmörkuð þjónusta er fyrir hendi. Allt eru þetta mikilvæg atriði til að stuðla að (Forseti hringir.) auknum jöfnuði í heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, á þeim stað sem við viljum vera.