148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka upp geðheilbrigðismál við hæstv. heilbrigðisráðherra. Eitt af því sem er kannski ein helsta skrautfjöður í málefnasamningi ríkisstjórnarflokkanna og gerir hann aðlaðandi er kaflinn um heilbrigðismál þar sem er fjallað um átak í geðheilbrigðismálum, mjög tímabært og brýnt. Á það reynir akkúrat núna, herra forseti, og birtist í þungum áhyggjum sjúklinga, aðstandenda, forráðamanna Hugarafls og geðteymisins Geðheilsu – eftirfylgdar.

Ég leyfi mér að vitna í orð ráðherra í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Halldóru Mogensen, eins og ég punktaði þau niður, þegar hæstv. ráðherra segist vona að afli Hugarafls verði veitt inn í ný geðheilsuteymi. Þá erum við náttúrlega að tala um þessi póstnúmerateymi. Ég þarf ekki að útskýra fyrir hæstv. ráðherra að Geðheilsa – eftirfylgd og Hugarafl starfar á öðrum grundvelli. Þau starfa á opnum grundvelli, grundvelli valdeflingar o.s.frv. Ég leyfi mér að vísa til frábærrar greinar Tryggva Gíslasonar, fyrrverandi skólameistara á Akureyri sem birtist í Morgunblaðinu 3. apríl sem og frábærrar greinar sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni „Úrræðið sem bjargaði lífi sonar míns“.

Ég leyfi mér að segja við hæstv. ráðherra: Getum við ekki fengið skýrari svör frá ráðherra en fram hafa komið í þessum efnum?