148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Geðheilbrigðismálin eru gríðarlega mikilvægur þáttur eins og hér hefur komið fram. Það sem er kannski mikilvægast af öllu þegar við ræðum geðheilbrigðismál almennt er að við áttum okkur á — mér er sérstaklega ofarlega í sinni þessa dagana, sem lýtur ekki að fyrirspurn hv. þingmanns, staða þeirra sem glíma við fíkn — að við verðum að hverfa frá þeim tíma að við teljum sem samfélag að það sé verkefni félagasamtaka að sinna fíkn og geðsjúkdómum. Það verður að vera verkefni heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisþjónustunnar af sama faglega metnaði, með sömu faglegu kröfum og með sömu virðingu við þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda og á við um líkamlega sjúkdóma. Það dugar ekki að almenna heilbrigðisþjónustan segi bara að aðrir þurfi að sjá um þetta. Með sjúkdóma af þessu tagi, sama hvort það eru geðsjúkdómar eða fíknisjúkdómar sem haldast oft í hendur, verður að gæta að því að við losum okkur úr þeim skammarstimpli sem hefur verið allt of ríkur í samfélaginu, mér liggur við að segja um aldaskeið, að fólk þurfi að skammast sín fyrir sjúkdóma af þessu tagi.

Opinbera heilbrigðisþjónustan hefur til að mynda ekki náð að taka utan um stöðu ungra fíkla eða fólks í fíknivanda. Það er ekki til eftirbreytni.

Af því að hv. þingmaður spyr fyrst og fremst um Geðheilsu – eftirfylgd og Hugarafl sem hv. þm. Halldóra Mogensen spurði líka um áðan er það svo að nýju geðheilsuteymin sem verða sett á stofn, og sum eru þegar komin af stað, eru opin úrræði og byggja á hugmyndafræði valdeflingar rétt eins og (Forseti hringir.) teymi Geðheilsu – eftirfylgdar.