148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um það hversu langt verði gengið í því að efla hið opinbera kerfi og hvort það verði gert á kostnað þeirra aðila sem nú þegar eru að veita þjónustu á grundvelli samninga. Það er ekki sjálfstætt markmið hjá mér að ganga á þá starfsemi sem þegar er fyrir hendi. Það er sjálfstætt markmið hjá mér að tryggja markvissari ráðstöfun opinbers fjár og að tryggja aukið jafnræði þegar þjónustan er annars vegar. Að því hefur verið fundið í nýjum skýrslum að það sé ekki nægilega skýrt. Hins vegar er þetta umræða sem er ekki langt frá þeim aðgengilegustu skotgröfum sem til eru í íslenskum stjórnmálum, það er nákvæmlega þessi umræða, en ég held að mestu máli skipti að halda því til haga að við erum að tala um þjónustuna sem verið er að veita. Og að mínu mati er líka sjálfstætt markmið í því þegar verið er að gera samninga um slíka þjónustu að sú þjónusta sé ekki hugsuð sem gróðavegur fyrir einstaklinga eða fyrirtæki.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um Karitas þá er það rétt að ég hef hitt Karitas og átti með þeim góðan fund. Sú staða sem upp er komin hjá þeim er að sumu leyti sambærileg þeirri sem komin er upp hjá sambærilegu litlu fyrirtæki á Akureyri sem er í svipuðum vanda, en hefur í raun lagt til að sumu leyti aðrar lausnir á þeim vanda sem snýst um það að auka samstarf við Sjúkrahúsið á Akureyri. En ég hef ekki sjálfstæða aðkomu að samningnum við Karitas og ég vona og vænti þess auðvitað að sá samningur klárist og frá honum verði gengið. Ég tek undir með hv. þingmanni að sú þjónusta sem það fyrirtæki veitir er gríðarlega mikilvæg og er mikilvægur kafli og dýrmætur í sögu okkar margra hér.