148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og svör við mörgum spurningum sem fram hafa komið um þessa fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur fengið þá einkunn að vera ávísun á fátækt og eymd, í boði Vinstri grænna.

Hæstv. ráðherra sagði snemma á ferlinum að hún ætlaði að bjarga heilbrigðiskerfinu. Mig langaði til að fara aðeins yfir það. Fyrstu sporin í embætti hafa ekki verið í ætt við ballett heldur eitthvað allt annað. Eitt af því sem hæstv. ráðherra hefur illu heilli gert er að leggja til atlögu við ástsælustu kvennastétt á Íslandi, ljósmæður, og snupra þær, meðal annars fyrir að hafa stofnað stéttarfélag á fullveldisárinu fyrir 100 árum. Það á að vera orsök að ógæfu þeirra í kjaramálum. Þetta olli mér miklum vonbrigðum.

Hæstv. ráðherra hefur talað um kerfisbreytingar. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir í hverju þær kerfisbreytingar sem hæstv. ráðherra vill berjast fyrir felast og þess vegna langar mig til að fá hana til að svara mér um það. Ég hef heyrt á hæstv. ráðherra að hún er ekki til í að efla einkarekna heilsugæslu, eins og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir mjög góðan árangur þeirra sem þegar eru fyrir hendi til að stytta hér biðlista. Hún er heldur ekki til í að taka á stærstu kerfisbreytingunni sem er að hætta við að hella niður í Vatnsmýrina 100 milljörðum kr. og byggja upp nýjan þjóðarspítala á nýjum stað. Meira að segja helsti guðfaðir Hringbrautar-fíaskósins sagði í blaðagrein um daginn að það mætti vera að fyrir 16 árum hefði eitthvað allt annað verið rætt en að byggja við Hringbraut, sem er nákvæmlega það sem við höfum haldið fram sem segjum að þjóðarspítalanum sé best fyrir komið annars staðar en við Hringbraut.

Mig langaði að fá viðbrögð ráðherra við þessu til að byrja með.