148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður deilum þeirri grundvallarskoðun að grunnheilbrigðisþjónusta eigi að vera án gjaldtöku. Ég er sammála hv. þingmanni með það. Með þessa sýn að leiðarljósi hef ég viljað leggja mitt af mörkum með þá áherslu í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára að óásættanlegt sé að Ísland sé þar statt að greiðsluþátttaka sjúklinga sé milli 17 og 18%, sem er há tala í alþjóðlegum samanburði. Ég hef lagt áherslu á að þessa greiðsluþátttöku þurfi að lækka.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það orðalag að segja að hann fái hroll þegar talað er um að draga úr kostnaði. Það er góð áminning fyrir okkur, að muna að það er svo að fjöldinn allur af fólki neitar sér um læknisþjónustu og ekki síður lyf vegna kostnaðar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það.

Þingmaðurinn spurði um Geðheilsu – eftirfylgd. Það var Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, með faglegum rökum, sem komst að þessari niðurstöðu. Ég hef ekki séð rök sem vísa í aðra átt á faglegum grunni.