148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að beina sjónum að hinum nýja meðferðarkjarna Landspítalans, langþráðum, eða öllu heldur þeirri hliðarverkun sem hlýst af því þegar hann verður tekinn í notkun árið 2023. Ég er ánægð með að stjórnvöld fylgja eftir þeim áætlunum fyrri ríkisstjórnar. Allir sem hafa fylgst með þessari umræðu vita að núverandi húsnæði er farið að móta starfsemina með tilheyrandi þrengslum og takmörkunum sem það setur, ekki síst með tilliti til, eða ég ætla ekki að segja ekki síst, við erum vissulega að tala um aðstöðu bæði sjúklinga og starfsfólks, en að minnsta kosti að sama leyti tækjakostsins og þar með þeirrar framþróunar í læknisþjónustu sem er í boði hér á landi.

Allir sem hafa fylgst með umræðunni um þessi mál vita hvaða væntingar eru gerðar til þess sem við getum boðið í heilbrigðisþjónustu, hvernig við ætlum að laða að okkur nýtt starfsfólk, fylgja eftir þróun í nágrannaríkjunum og vera samkeppnishæf þegar þessi nýja meðferðareining verður tekin í gagnið. Ég saknaði pínulítið að sjá þess ekki stað í fjármálaáætlun hver markmiðin væru við tækjakostnað. Þessi nýja spítalabygging á að vera fullbúin og reiðubúin að taka til starfa og uppfylla þessar væntingar eins og við viljum eftir örfá ár og ef vel á að vera ætti eiginlega að vera farið af stað með allar greiningar og skipulag og leggja út í ákveðinn kostnað. Ég veit að eins skrýtið og það er er fjármagn til lækningatækja bæði Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri falið þarna einhvers staðar inni í, það er mjög erfitt að finna út úr þessu, þetta getur vel verið þar. En ég kalla eftir að hæstv. ráðherra upplýsi mig um stöðu mála með þessa áætlun. Eru menn tilbúnir? Hvar er hægt að finna upplýsingar inni í plagginu?