148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt og mikilvæg ábending hjá hv. þingmanni. Fram til þessa höfum við kannski beint sjónum okkar fyrst og fremst að uppbyggingu húsakostsins við Hringbraut en minna að því sem verður ekki fram hjá litið, sem er í fyrsta lagi aðlögun núverandi bygginga að breyttri starfsemi og uppbygging tækjakosts við breytta starfsemi á lóðinni allri. Það er hárrétt sem hér kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta er engan veginn með nægilega skýrum hætti inni í áætluninni enda kemur svo sem ekki að þessu fyrr en meðferðarkjarninn kemur til notkunar. Ég er nú þegar farin að setja vinnu í gang sem lýtur að því að setja upp áætlun af þessu tagi. Við getum ekki búið við það að þegar húsakosturinn er kominn, tilbúinn, þurfum við að fara að finna út úr því hvernig við ætlum að fylla ný hús með starfsemi og flytja núverandi starfsemi inn í nýjan húsakost og í raun hvernig húsakosturinn sem fyrir er á lóðinni kemur til móts við breyttar aðstæður. Þetta er eitthvað sem þarf að vera partur af framtíðarsýn verkefnisins við Hringbraut.

Ég hef líka óskað eftir því við Landspítalann, til þess að tryggja að það sé góður gangur í verkinu, að hefja nú þegar þarfagreiningu og mat á þörfinni fyrir göngudeildarhúsið sem er hluti af öðrum áfanga þannig að ekki verði rof eða hik í framvindunni á uppbyggingunni á lóðinni. Utan um þetta þarf að halda vel því þetta er fordæmalaus stærðargráða á verkefni og gríðarlega mikilvægt að takist vel til.