148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar ef svo virðist sem ég hafi verið að segja við hv. þingmann að hann væri í skotgröfum. Það var ekki meiningin. Ég var einfaldlega að segja að umræðan um rekstrarform er vel þekkt umræða sem kannski færir okkur ekkert mikið áfram við að tala um þjónustu. Það voru mín orð og ekki síður beint að sjálfri mér en hv. þingmanni.

Það er rétt að það er mikið eftirlit með tilteknum hluta af heilbrigðisþjónustunni. Þá er ég bæði að tala um gæðavísa og ramma og kröfur í samningum. Sums staðar. Það á bæði við opinbera kerfið og líka einstaka samninga. Hins vegar hefur sérstaklega verið á það bent að í samningum sem eru kláraðir af hendi Sjúkratrygginga Íslands sé of mikið um að ómarkvisst sé hvað verkkaupinn, við, ríkið, vilji kaupa. Það skiptir mjög miklu máli bæði fyrir seljendur, notendur og kaupendur (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunnar að vita nákvæmlega hvað á að vera í þessum samningum. Það þurfum við að bæta.