148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Starfsemi og umfang málefnasviðs 17, umhverfismála, er nokkuð víðfeðmt og fjölbreytt. Starfsemin skiptist í fimm málaflokka, en þeir eru:

1. náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla,

2. rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands,

3. meðhöndlun úrgangs,

4. varnir gegn náttúruvá,

5. stjórnsýsla umhverfismála.

Samkvæmt fjármálaáætlun 2019–2023 er gert ráð fyrir að árleg heildarframlög til málefnasviðsins muni á tímabilinu aukast úr 17,5 milljörðum kr., samkvæmt fjárlögum 2018, í um 21,4 milljarða kr. árið 2023. Árleg aukning heildarframlaga nemur um 3,9 milljörðum kr. að raunvirði og jafngildir um 22,4% raunvexti. Ef horft er til ársins 2017 og þeirrar hækkunar sem þá varð til málefnasviðsins nemur þessi hækkun 35%. Uppsafnað aukið útgjaldasvigrúm til ýmissa áherslumála yfir tímabilið mun nema alls um 14,7 milljörðum kr.

Megináherslan sem lögð er fram með þessari aukningu fjárheimilda er á áskoranir sem snúa að loftslagsmálum og þeim er lúta að náttúruvernd.

Framtíðarsýn í loftslagsmálum miðar að viðsnúningi í nettólosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi og að Ísland færist nær settu markmiði samkvæmt Parísarsamningnum og markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040.

Gert er ráð fyrir að verja 6,8 milljörðum kr. í aukin verkefni á sviði loftslagsmála á tímabilinu. Þar af er gert ráð fyrir að ráðstafa um 5,3 milljörðum til að vinna að aðgerðum til að draga úr útlosun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun þar um.

Hér er um að ræða aðgerðir sem styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi, svo sem uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna; aðgerðir sem setja verð á losun kolefnis, svo sem hækkun kolefnisgjalds og það að koma á urðunarskatti; betri nýtingu áburðar og vinnslu metans úr búfjáráburði; eflda skógrækt og landgræðslu og endurheimt votlendis og útfösun svokallaðra F-gasa sem eru öflugar gróðurhúsalofttegundir sem notaðar eru sem kælimiðlar.

Þá er gert ráð fyrir að 1,5 milljörðum kr. verði varið í verkefni sem tengjast nýsköpun, rannsóknum, fræðslu og vitundarvakningu í tengslum við loftslagsmál.

Í þessu sambandi öllu hefur ráðuneytið meðal annarra sett sér tvö eftirfarandi markmið:

1. Að árið 2019 sé komin til framkvæmda aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem nái til allra geira samfélagsins og miði að því að uppfylla skuldbindingar Parísarsamningsins og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi.

2. Að koma á og vinna eftir heildstæðu vöktunarkerfi um ástand gróður- og jarðvegsauðlinda er tryggi að fyrir liggi á hverjum tíma upplýsingar um losun og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri.

Framtíðarsýn fyrir náttúruvernd er að mikilsverður árangur hafi náðst á sviðinu, að víðtæk sátt hafi náðst um orkunýtingu landsvæða og viðmið um sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda. Megináherslan verður á að styðja myndarlega við uppbyggingu innviða, auka og bæta landvörslu og átak í friðlýsingum svæða og lífvera.

Gert er ráð fyrir að verja 7,5 milljörðum kr. í aðgerðir til verndar náttúrunni, þar af 4 milljörðum í verkefni tengd uppbyggingu innviða, svo sem skipulag, framkvæmdir, aukna fagþekkingu, vöktun náttúrunnar og fræðslu, 2,2 milljörðum kr. til aukningar í landvörslu og er þá bæði horft til heilsárs- og tímabundinnar landvörslu úti um allt land og 1,3 milljörðum til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Í þessu sambandi hefur ráðuneytið meðal annarra sett sér tvö eftirfarandi markmið:

1. Að á næstu fimm árum hafi verið hrundið í framkvæmd núverandi áformum stjórnvalda um friðlýsingar 30 náttúruverndarsvæða, þar með talið stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

2. Að álag áfangastaða vegna ágangs ferðamanna á náttúruverndarsvæðum sé innan þolmarka, m.a. með uppbyggingu viðeigandi innviða og landvörslu til að stýra ágangi ferðafólks og viðhalda verndargildi náttúruverndarsvæða.

Þótt ljóst sé að megináherslur ráðuneytisins muni beinast að loftslagsmálum og náttúruvernd og að aukið fjármagn renni fyrst og fremst til þessara málaflokka eru fleiri áskoranir sem tekist verður á við er varða aukna sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda, endurskoðun á stefnu og markmiðum í úrgangsmálum, þar sem áhersla verður lögð á hringrásarhagkerfið og að nýta úrgang sem auðlind fyrir aðra starfsemi, og áskorunum er varða náttúruvá.

Í heild sinni tel ég að við séum að horfa á mestu aukningu í framlögum til umhverfismála hingað til, enda til mikils að vinna. Í áætluninni felast tækifæri til stórsóknar sem hefur það að markmiði að auka vernd og þar með grundvöll nýtingar á náttúrunni, ekki síst fyrir ferðaþjónustu og störf úti á landi.