148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans sem er að mörgu leyti góðra gjalda verð. Honum er nokkur vorkunn enda mikill hugsjónamaður í þeim málaflokki sem hann hefur nú með höndum, er í raun staddur léttklæddur meðal varga í ríkisstjórn þriggja flokka sem eru misáhugasamir um þessa anga umhverfismála.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í kolefnisgjaldið. Það var hækkað um 50% í upphafi árs þegar áætlun síðustu ríkisstjórnar var að hækka það um 100%. Nú þegar Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn er hins vegar dregið úr þessum nauðsynlegu aðgerðum til varnar loftslaginu. Í nýframlagðri fjármálaáætlun er lagt til að kolefnisgjald verði hækkað um 10% árið 2019 og svo um önnur 10% árið 2020. Þetta gerir 70% á þremur árum. Gert er ráð fyrir að hvor hækkun um sig skili ríkissjóði um 600 millj. kr. árlega.

En hvað er um að ræða hjá hæstv. umhverfisráðherra, ráðherra náttúru og Vinstri grænna? Jú, þetta er umtalsverð lækkun á grænum sköttum frá því sem áður var ákveðið. Úr kynningu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Benedikts Jóhannessonar, á fjármálaáætlun þeirrar stjórnar, bara fyrir ári, var ákveðið að hækka kolefnisgjaldið um 100% frá 1. janúar 2018. Sagt var að frekari aðgerðir á sviði grænna skatta kæmu til skoðunar síðar. Hvers vegna í veröldinni er hætt við þau áform núna þegar Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn?