148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það er verið að auka fjármagn til loftslagsmála umtalsvert á milli ára eins og ljóst var af framsögu minni. Framlög til loftslagsmála eru aukin um 6,8 milljarða kr. á þessu fimm ára tímabili. Þetta hefur ekki sést áður. Vissulega er ekki verið að hækka kolefnisgjaldið jafn mikið og fyrri ríkisstjórn ætlaði sér en ég minni líka á að ekki var búið að samþykkja þá hækkun þannig að það er ekki rétt að tala um lækkun á þessum grænu sköttum heldur er um að ræða hækkun þó að hún sé ekki eins mikil og fyrirhuguð var af fyrri stjórnvöldum.

Það er rangt að segja að ekki sé forgangsraðað til loftslagsmála. Það hefur aldrei farið jafn mikið fjármagn í loftslagsmál á Íslandi og fyrirhugað er að setja núna í aðgerðir sem eiga að draga úr losun og stuðla að bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri, endurheimt votlendis.

Til að svara spurningunni hvort fyrir hvert prósent af hækkuðu kolefnisgjaldi hafi verið metið hvaða árangri það skili hefur það ekki verið gert. Núna er í vinnslu í ráðuneytinu aðgerðaáætlun þar sem farið verður í að reyna að meta hversu miklu ákveðnar aðgerðir skila í samdrætti gróðurhúsalofttegunda og hversu mikið þær kosta. Þar skiptir gríðarlega miklu máli, eins og hv. þingmaður kom inn á, að takast á við bílaflotann. Það verður sérstök áhersla á bæði að halda áfram að styrkja innviðina sem þarf að koma í gagnið og síðan líka að auðvelda umbreytingu yfir í að fólk geti farið að nýta sér þessa kosti í mun meira mæli. Ég er nokkuð bjartsýnn á að þessi umskipti (Forseti hringir.) taki skemmri tíma en við höfum álitið hingað til.