148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hæstv. umhverfisráðherra. Í kjölfar umræðunnar sem átti sér stað hér á undan vil ég brýna ráðherrann til að ganga hægt um gleðinnar dyr hvað aukna hækkun forsjárhyggjuskatta varðar, eins og kolefnisgjaldið er. 10% tvö ár í röð er alveg feikinóg. Ég reikna með að ég muni greiða atkvæði gegn þeirri hækkun að ári eins og ég gerði í desember sl. Bara svo það liggi fyrir að hér eru ekki allir sammála í þeim efnum.

Í því plaggi sem nú liggur fyrir þinginu, tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023, er einn málaflokkur sem mér þykir falla milli skips og bryggju með mjög áberandi hætti, eða kannski ekki svo áberandi hætti. Núna, á 110 ára afmæli Skógræktar ríkisins kemur skógrækt fjórum sinnum fyrir á þessum tæplega 400 blaðsíðum í áætluninni, einu sinni í tengslum við landbúnaðarmál og þrisvar sinnum í kaflanum um umhverfismál og alls staðar í millifyrirsögnum. Mér sýnist á öllu mjög lítið að finna í þessu plaggi öllu er varðar það að menn ætli að standa bærilega að skógrækt hér eftir. Markmið Skógræktar ríkisins um fjórföldun í magni eru svo sem ekki neitt mjög aggressíf, afsakið orðalagið, því að náist það markmið er það eingöngu tvöföldun frá því sem það var fyrir hrun. Það er ekki eins og menn séu að byggja einhverjar skýjaborgir í þeim efnum.

Mér þykir umfjöllunin snubbótt þegar kemur að málefnum skógræktar. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þau varðar.