148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get nú glatt hann með því að þó svo að orðið skógrækt komi bara fyrir fjórum sinnum er meira sem mun fara í þann málaflokk á komandi árum en við höfum séð um nokkurn tíma. Hins vegar er ekki búið að skipta upphæðunum nákvæmlega niður á málaflokka, sem gerist náttúrlega þegar við förum í vinnu við fjárlagafrumvarpið 2019. En í heild sinni munum við nálgast þetta þannig í ráðuneytinu, sem ég held að sé mjög skynsamlegt, að taka þá upphæð sem verður ætlað að fara í bindingu, þ.e. í landgræðslu og skógrækt og að moka ofan í skurði, og reyna að nálgast þetta með heildstæðum hætti þar sem allir þessir aðilar koma að, þá helst út frá áætlunum um landnýtingu.

Það er alveg ljóst að talsverður hluti þeirrar upphæðar sem ætlað er að setja í loftslagsmálin fer akkúrat í þetta. Það skapar náttúrlega störf úti á landi. Við náum fram markmiðum í fleiru en bara loftslagsmálum, markmiðum sem tengjast líka líffræðilegri fjölbreytni og því að græða upp landið.