148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Verið er að skoða þetta í fjármálaráðuneytinu með hvaða hætti megi haga þessum málum til framtíðar hvað varðar kolefnisgjaldið og bifreiðagjöldin. Það liggur núna í skýrsludrögum sem ég held að séu farin til kynningar í opnu gáttinni á netinu. Til viðbótar við það eru náttúrlega þær ívilnanir sem við vorum að samþykkja rétt fyrir áramótin og hvernig tryggja megi að skattalegar ívilnanir stuðli að áframhaldandi vexti bílaflotans í átt að umhverfisvænni bifreiðum, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt að halda vel til haga. Síðan tel ég að hlutdeild þessara bifreiða í sköttum muni aukast eftir því sem líður á tímabilið. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg nákvæmlega hvenær það byrjar.

Síðan er til skoðunar líka hvort beita eigi skattkerfinu þegar kemur að urðun lífræns úrgangs sem myndi leiða til þess að verðið myndi verða sanngjarnara gagnvart því að geta nýtt það áfram til þess að búa til önnur verðmæti, eins og áburð og annað slíkt. Það er til skoðunar varðandi gerð aðgerðaáætlunarinnar í loftslagsmálum en það er ekki komið á þann stað að ég geti greint nákvæmlega frá því hversu mikið það er eða hvernig hugmyndirnar eru. Það er svo sem ekki búið að ræða það neitt frekar. En það er ekkert mál að upplýsa að þetta er til skoðunar.