148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta innlegg sem ég tel mjög mikilvægt. Eins og ég sagði áðan tel ég gríðarlega mikilvægt að við horfum á þessi fjölþættu markmið þegar við erum að setja fjármagn í málaflokk eins og umhverfismál. Þá skiptir þetta gríðarlega miklu máli eins og hv. þingmaður nefndi. Þegar við setjum fjármagn í landgræðslu og skógrækt erum við líka að setja fjármagn í loftslagsmál og öfugt, hvernig sem við viljum líta á það. Ég tel hins vegar gríðarlega mikilvægt að við lítum ekki á aðgerðir í náttúruvernd, í landgræðslu og skógrækt, eingöngu út frá loftslagsmarkmiðunum vegna þess að við eigum að líta á fjölþættu markmiðin. Við eigum að vera stolt af því að við séum að verja fjármunum í að ná fleiru en einu markmiði eða einhverjum afmörkuðum markmiðum. Það er gríðarlega mikilvægt. Í sumum tilfellum er þetta líka markmið um aukna útivist og annað slíkt.

Varðandi undirbúning og samstarf við þá aðila sem koma til með að deila fjármagninu eða nýta fjármagnið sem við setjum í þetta vil ég segja að þessi vinna er að hefjast í ráðuneytinu og þar er grundvallaratriði að kalla stofnanir okkar að málum, Landgræðsluna og Skógræktina, til að finna þessum málum farveg. Ég sé fyrir mér að þarna sé um að ræða aukið fjármagn í þau verkefni sem þegar eru til staðar. Það er einfaldast að nýta þær leiðir eins og hv. þingmaður benti á. Í annan stað held ég að þetta stóraukna fjármagn gefi okkur tækifæri til að horfa á fleiri ný verkefni. Við höfum á síðustu 10 árum til dæmis séð Hekluskógaverkefnið sem varð til. Það mætti sjá fyrir sér fleiri slík samstarfsverkefni á næstu árum.