148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta innlegg og vil byrja á að taka undir það að ég er hjartanlega sammála honum um að umhverfismál snúast að sjálfsögðu ekki bara um skógrækt, enda má sjá það allvel á þeim víðfeðmu málefnum sem þetta málefnasvið tekur til.

Svarið er já, það er meiningin að reyna að taka heildstætt á loftslagsmálunum að sjálfsögðu. Það felur í sér að við erum með markmið árið 2030 samkvæmt Parísarsamkomulaginu og við erum síðan með það markmið sem ríkisstjórnin setur óháð alþjóðlegum skuldbindingum um kolefnishlutleysi árið 2040. Það er mjög mikilvægt að þessi tvö markmið vinni saman. Við erum að vinna núna að gerð aðgerðaáætlunar sem miðar að því að takast á við þessi mál hvað varðar skuldbindingarnar 2030 og erum síðan að setja í gang í raun fyrstu skrefin hvað varðar kolefnishlutleysi. Það mun að sjálfsögðu taka einhvern tíma að koma með það fram, þetta er það sem kom nýtt inn. En ég tek undir með hv. þingmanni að vissulega eigum við fyrst og fremst að horfa til þess að draga úr losuninni og síðan kemur hitt á eftir, þ.e. bindingin og það allt. Bindingin þarf hins vegar að byrja strax vegna þess að hún tekur tíma. Ekki síst fyrir kolefnishlutleysismarkmiðin er mikilvægt að hún geti farið að vinna fyrir okkur sem allra fyrst.

Það sem við sjáum í fjármálaáætluninni eru náttúrlega vísbendingar um, eða ekki vísbendingar heldur sannanir um það að við ætlum að setja fjármagn akkúrat í að byrja á báðum þessum málum.