148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Hv. þingmaður, þakka þér fyrir innleggið. Þið megið alveg kjósa mig sem fyrirmyndarráðherra ef þið viljið, ég er alveg til í það. (Gripið fram í: … í samkeppni og …) Hohohó. Jæja, það er ágætt að geta grínast líka.

Varðandi miðhálendisþjóðgarð og áhrif hans á auðlindanýtingu vil ég byrja á að taka fram að stór hluti miðhálendisins er í rauninni þegar friðlýstur og sú leið sem hefur verið farin á þeim friðlýstu svæðum er að það er víðtækt samstarf milli heimamanna, umhverfisverndarsamtaka, útivistarsamtaka og ferðaþjónustunnar um hvernig nýtingin á að eiga sér stað. Ég held satt best að segja að miðhálendisþjóðgarður feli í sér mikil tækifæri fyrir sérstaklega hinar dreifðari byggðir þar sem ekki eru þjóðgarðar fyrir og bendi í því sambandi á rannsókn sem var gerð á Snæfellsjökulsþjóðgarði sem sýndi að hann væri að skila um 3,9 milljörðum í þjóðarbúið á ári miðað við þá rannsókn og að 1,8 yrðu eftir á svæðinu sjálfu. Það er mjög nálægt Reykjavík. Eftir því sem við færum fjær Reykjavík geri ég ráð fyrir að gistinætur yrðu fleiri í tengslum við þjóðgarðinn og þar fram eftir götunum.

Hv. þingmaður nefnir líka sjálfbæra nýtingu lands. Hér er vísað sérstaklega til ferðamennskunnar en líka til sjálfbærrar nýtingar gróður- og jarðvegsauðlindar sem kemur vissulega inn á landbúnað. Það eru tvö markmið sem taka sérstaklega á þessu í áætluninni. Í þeirri sem kemur inn á sjálfbæra nýtingu lands hvað varðar gróður- og jarðvegsauðlindina er verið að vinna að því í samstarfi Landgræðslu ríkisins og Landssambands sauðfjárbænda (Forseti hringir.) að búa til kerfi til að meta ástandið. Það er það sem þetta vísar í. Ég get komið betur inn á það í síðara svari.