148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að hafa hælt ráðherra aðeins of mikið. Nú langar mig að spyrja nánar: Ef við búum til miðhálendisþjóðgarð, mun hann koma í veg fyrir að farið verði í orkunýtingu innan þjóðgarðsins, þ.e. nýta fallvötn eða jarðhita?

Síðan langar mig að spyrja út í það sem stendur á bls. 273 um framtíðarsýn og meginmarkmið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur að með breyttri landnotkun hafi verið stigin afgerandi skref til að uppfylla markmið um kolefnishlutleysi landsins árið 2040.“

Er þarna verið að tala um votlendi, þ.e. að grafa ofan í skurðina og berjast gegn því sem gert var hér fyrir nokkuð mörgum árum, þ.e. að ræsa fram landið? Er það hugsunin þegar talað er um breytta landnotkun?

Mig langar líka að spyrja í framhaldi af því á hverju þær fullyrðingar byggi að votlendi sé svo slæmt. Eru til nógu góðar rannsóknir (Forseti hringir.) um þetta sem hefur verið fullyrt hér margoft?