148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að eyða mínum tíma í að kvarta undan orðum virðulegs forseta hér áðan um að ráðherra væri svo sjaldan í salnum. Ég ætla einfaldlega að segja það er ósatt. Hæstv. ráðherra er alltaf hérna þegar verið er að tala um hans mál, ólíkt sumum öðrum ráðherrum.

Aðeins að efni fjármálaáætlunar. Í þessari fjármálaáætlun, miðað við fyrri fjármálaáætlun hafa verið tekin burt nokkur markmið og mælikvarðar um losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. varðandi samgöngur þar sem átti að draga úr losun miðað við 1990, það er ekki lengur í núverandi fjármálaáætlun. Í ferðaþjónustunni átti að vera ákveðin heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem er ekki lengur, og minnst er á losun á málefnasviðum 4, 5, 6, 7, 12, 15 og 17, en ekki öðrum, þar sem væri kannski áhugavert að sjá markmið um losun á gróðurhúsalofttegundum, eins og t.d. samgöngum sem var þar áður en er ekki núna. Ég velti fyrir mér hvort þetta henti í rauninni þeirri stefnu sem sett er fram á sviði umhverfismála. Hvort þetta eigi ekki að ganga inn á önnur svið líka.

Hæstv. ráðherra nefndi tölur um t.d. landvörslu, 2,2 milljarðar og miðhálendið 1,3 milljarðar, sem ég geri ráð fyrir að séu uppsafnaðar upphæðir, sem myndi þá þýða 440 milljónir á ári í landvörslu og 260 milljónir ári í miðhálendisgarð í lok fjármálaáætlunar. Það eru þá 700 milljónir ári og á eftir að útskýra þá 2,3 milljarða á ári sem er hækkunin frá tölunum 2019. Því að í stefnumótuninni á að útskýra hvernig hún samræmist markmiðum um þróun um tekna og gjalda. Sett er fram þróun tekna um plús 3 milljarða frá upphafi fjármálaáætlunar til loka fjármálaáætlunar án þess í rauninni að útskýrt sé hvað hin og þessi markmið kosta.

Ég fagna því að hafa séð og heyrt tölur frá hæstv. ráðherra en sakna þess að sjá þær ekki í fjármálaáætlun.