148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, þarna er um að ræða uppsafnaðar tölur sem hv. þingmaður vísar til. Til að fara aðeins nánar yfir það þá er gert ráð fyrir 7,5 milljörðum uppsöfnuðum á þessum fimm árum inn í það sem við getum í heild kallað náttúruvernd. Þar fara 4 milljarðar í uppbyggingu innviða, vöktun, framkvæmdir vegna fagþekkingar og þar fram eftir götunum, 2,2 milljarðar til landvörslu 1,3 milljarðar til þjóðgarðs á miðhálendinu. Þannig að það er það sem er uppsafnað.

Varðandi spurningar sem lutu að loftslagsmálunum má segja að aðgerðaáætlunin sem nefnd er í fjármálaáætluninni, eigi að vera komin í gagnið árið 2019. Við ætlum nú helst að koma henni fyrr í gagnið. Þar kemur þetta í rauninni allt saman fyrir, þannig að verið er að fækka einstökum markmiðum og einfalda það í fjármálaáætluninni sjálfri. En það er að sjálfsögðu allt inni í aðgerðaáætluninni sem er verið að vinna í ráðuneytinu.