148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svarið, ég get ekki sagt að ég sé ánægður með það. Ég heyrði ekkert frá hæstv. ráðherra um það að hann væri tilbúinn til þess að beita sér í málinu í þágu náttúruverndar, ekki neitt. Það er helst á ráðherranum að skilja að markmið jarðlífs og mannlífs sé að græða á því. Það var eiginlega það eina sem kom upp úr ráðherranum.

Ég dreg ekki í efa góðan hug og góðan vilja en tilkall flokks umhverfisráðherra til forystu fyrir málefnum umhverfisins á Íslandi styrkist nú ekki við þennan málflutning, verð ég að leyfa mér að segja.

Ég ætla að víkja aðeins að öðru máli sem ég hef leyft mér að taka upp á Alþingi um farveg fyrirspurnakerfis. Ég hef lagt fram nokkrar fyrirspurnir sem lúta að vatnsvernd, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Hér er ekið miklu magni af eiturefnum yfir Sandskeið og Hellisheiði. Hér eru flutningar (Forseti hringir.) á jarðvegsefnum og það er verið að dæla niður eiturefnum frá Hellisheiðarvirkjun. (Forseti hringir.)Ég vil bara leyfa mér að vekja athygli á þessum fyrirspurnum og vænti góðs af hendi ráðherra. (Forseti hringir.)Að lokum vil ég spyrja til að fylgja eftir spurningu frá félaga mínum hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni hvað ráðherra sé tilbúinn (Forseti hringir.) að gera til að styðja votlendissjóð.