148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða fjármálaáætlun sem er stóri ramminn í kringum 34 málefnasvið. Það var rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að í ráðuneytinu eru margvísleg verkefni sem heyra undir þetta málefnasvið. Það er vissulega fjallað um almenningssamgöngur í kafla á málefnasviði 11, þ.e. samgöngu- og fjarskiptamál. Við höfum verið að vinna að talsverðum hlutum þar, bæði að koma á nýjum samningi við landshlutasamtökin og því verkefni sem er á höfuðborgarsvæðinu er borgarlínuna varðar.

Eins og öllum þingheimi er kunnugt eru kosningar til sveitarstjórna í vor. Verkefnið er því ekki komið lengra á veg en svo að eðlilegt er að taka þurfi upp viðræður við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um aðkomu ríkisvaldsins að því verki. Þar get ég sagt einfaldlega að við erum mjög jákvæð gagnvart því enda skrifuðum við það í stjórnarsáttmálann. Við erum líka mjög jákvæð gagnvart því að auka stuðning við almenningssamgöngur hringinn í kringum landið. Og það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að til að ná loftslagsmarkmiðum okkar þurfum við m.a. að auka almenningssamgöngur, en bæta vegina líka. Góðir vegir sem hægt er að aka um á minni bílum með nýrri orkumiðlun spara líka útblástur á kolefni.

Það er margt sem við erum að gera í þessu plaggi er varðar loftslagsmálin og hvernig við getum uppfyllt bæði stjórnarsáttmálann og þau markmið sem við höfum sett okkur. Þannig setjum við okkur loftslagsmarkmið sem koma fram í kaflanum og ég fór aðeins yfir það í inngangi mínum að í samgönguáætlun þurfum við að taka tillit til þeirra.