148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að ræða samgönguhluta tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Eins og hæstv. ráðherra hefur kannski tekið eftir en er þó ekki víst hefur sá sem hér stendur lýst yfir umtalsverðum vonbrigðum hvað fjármögnunarhluta samgönguframkvæmda varðar. Ég held að þær línur sem lagðar eru í fjármálaáætluninni hljóti að þýða að ríkisstjórnin horfi til þess að ganga til viðbótarframkvæmda með sérstakri fjármögnun og þá veggjöldum með einum eða öðrum hætti, ýmsar útfærslur eru færar, en veggjöld verði nýtt til sérstakrar fjármögnunar til að koma málum áfram. Ég held að það verði engin sátt með þá stöðu sem nú er uppi og að menn vinni ekki á henni hraðar en mögulegt er með þeim fjárveitingum sem eru tilgreindar í þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir.

16,5 milljarðar eru vissulega viðbót frá því sem nú er. En það er engu að síður þannig að þeir gera ekki nema rétt rúmlega að vinna upp þá vanfjármögnun á samgönguáætlun sem liggur fyrir frá árinu 2017–2018.

Hæstv. ráðherra hefur rætt í þessu samhengi að hann sjái fyrir sér að ef farið verði í gjaldtöku verði það eingöngu á leiðum þar sem hægt er að fara aðra leið eins og það er orðað. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar, hvað hann sjái fyrir sér og hugsanlega einhver dæmi í þá veruna. Þetta er auðvitað hlutur sem skiptir gríðarlegu máli upp á bæði umfangið sem menn geta mögulega verið að horfa til í þessum efnum sem viðbót ofan á þær fjárveitingar sem tilgreindar eru hér. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að (Forseti hringir.) fara yfir þetta, hvað það varðar að önnur leið sé fær.