148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það eru auðvitað mörg verkefni sem eru mjög brýn og 15 milljarðar, sem er einmitt áætluð talan um tvöföldun Hvalfjarðarganga, er mjög há upphæð. Það hafa verið umræður um að það gæti komið til þess fyrr en seinna ef umferðaraukningin verður áfram í þeim takti sem hún hefur verið á undanförnum árum, þá þurfum við í það minnsta að fara að undirbúa okkur undir slíka framkvæmd. En ég er sammála hv. þingmanni að það er ekkert sem hastar á að við förum af stað í það á þessu eða næsta ári, enda nefndi ég það í ræðu minni að kæmi til þess á næstu árum, að það þyrfti, væri það verkefni sem væri dæmi um það sama og við vorum að nefna áðan um hugsanlega gjaldtöku á leiðum þar sem menn eiga annan kost.

Það þarf hins vegar að fara ítarlegar ofan í það og greina það betur hvernig umferðaraukningin er. Er hægt að stýra þessu með öðrum hætti? Þetta eru miklir fjármunir. Við þurfum að spyrja hvernig skynsamlegast er að raða þessum framkvæmdum í forgangsröð með tilliti til upphæða sem liggja undir á hverjum stað, en líka að spyrja hvaða umferðaröryggi við erum að bæta og hvernig við tryggjum meiri skilvirkni fyrir fólk að komast frá einum stað til annars og annað í þeim dúr sem er auðvitað lykilatriði áður en menn taka ákvarðanir um að fara í tilteknar framkvæmdir. Það er auðvitað það sem Vegagerðin er að gera alla daga þegar hún vegur og metur þörf á framkvæmdum og nákvæmlega hvaða framkvæmdir þarf að fara í.