148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna alveg sérstaklega þeim auknu framlögum sem ríkisstjórnin hefur náð samstöðu um að setja í samgöngumálin. Þörfin er brýn.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í það hvernig við sjáum þetta gerast hjá okkur á næstu árum þrátt fyrir þessa viðbót. Það hefur verið talað um, í skýrslu Samtaka iðnaðarins, að það þurfi um 100 milljarða í viðhald á næstu fimm árum. Af þeim 5,5 milljörðum sem eru að koma til viðbótar núna má reikna með að það þurfi að minnsta kosti 3–3,5 milljarða af því beint í viðhaldsverkefni sem eru mjög knýjandi. Við þurfum að reyna að leggjast á árar með að fá aukið fjármagn til þess einnig á þessu ári. Þá eru eftir um 2 milljarðar.

Verkefni sem fram undan eru eru Gufudalssveitin upp á 7,5 milljarða, Dynjandisheiði upp á 3,5, Reykjanesbrautin upp á 11,5, Hveragerði upp á 4, Ölfusárbrú upp á 5,5, Hornafjörður upp á 4,5, Seyðisfjarðargöng upp á 20 milljarða plús. Þetta gera í kringum 60 milljarða, fyrir utan allt hitt.

Þegar við horfum til þessara stórkostlegu verkefna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem ég hafði eiginlega komist sjálfur að niðurstöðu um að geti verið mjög skynsöm leið, eftir að skýrslan um veggjöld var unnin, hvort við þurfum ekki að horfa til stærri stórátaks í flýtiframkvæmdum á grundvelli veggjalda og hvort þá sé ekki nauðsynlegt að gæta jafnræðis íbúa í landinu í þeim efnum þannig að gjaldtakan muni ekki eiga sér stað í kringum einhver staðbundin verkefni heldur til að horfa á miklu stærri heildarverkefni og lausnir, til að mynda leiðirnar hér inn og út af höfuðborgarsvæðinu, eins og voru teknar undir í þessari skýrslu, og horfa síðan til þess hvernig við ætlum að gæta jafnræðis þegnanna landsins þegar að þessu kemur. Mér finnst eðlilegt að horft sé til gjaldtöku fyrir austan, fyrir norðan og fyrir vestan að sama skapi. Ég fann fyrir velvilja víðast út um land gagnvart þessum hugmyndum á sínum tíma.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um þetta og í ljósi þess að þegar ég talaði um að kannski væru (Forseti hringir.) 1,5–2 milljarðar eftir (Forseti hringir.) af þessum hækkunum sem búið er að boða á næstu árum munum við væntanlega (Forseti hringir.) þurfa að setja upp undir helming af því bara í flugvelli og hafnir.