148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að áskoranirnar fram undan eru mjög miklar vegna þess að við höfum gert of lítið í vegamálum, í flugvallar- og flugmálum víða um land og einnig eru stór verkefni fram undan í hafnarframkvæmdum. Stærsta verkefnið er kannski það sem ég kom aðeins inn á í inngangi mínum og hv. þingmaður byrjaði sitt mál á, þ.e. hin mikla viðhaldsþörf sem hefur vaxið mjög í vetur. Vegir sem menn héldu að myndu kannski þola eitt eða tvö ár áður en nýtt slitlag yrði lagt á þá hafa einfaldlega hrunið í vetur, bæði vegna þess að veðráttan í vetur hefur verið óvenjuvond fyrir vegi og hins vegar vegna þess að umferðin hefur einfaldlega aukist svo mikið. Svo allt í einu ertu kominn að þolmörkum og þá er sá vegur ónýtur og þá þarf í raun að byggja hann upp. Þá getur verið spurning hvort við erum að ræða viðhald eða jafnvel nýframkvæmd, alla vega einhvers staðar þar á milli.

Vegagerðin hefur metið það þannig að væru þeir með 10,5–11 milljarða á ári myndu þeir geta unnið upp þennan viðhaldshalla sem þeir hafa, held ég, metið um 65 milljarða þörf á. Í dag erum við með um 8 milljarða sem er auðvitað veruleg aukning frá því sem áður var. Ef ég man rétt voru þetta rúmir 5 milljarðar 2016. Það er búið að auka núna á síðastliðnum tveimur árum verulega í þann hluta. En það þarf meira til. Ég sé fram á að við getum innan þessarar áætlunar — við erum kannski með 70–75 milljarða inni á þessum lið framkvæmda og viðhalds á næstu þremur árum — gert talsvert stóran skurk. En við þurfum líka að horfa til langs tíma í þessu verkefni, af því að við megum aldrei lenda í því aftur að vera komin í slíka þörf.

Varðandi (Forseti hringir.) gjaldtökuna þarf ég að fá að svara hv. þingmanni því betur í seinna skiptið.