148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég velti einmitt fyrir mér hvort þetta málefnasvið njóti ekki ákveðins forskots, og samgöngumálin líka, að vera með ramma um að setja heildarstefnu fyrir þau málefnasvið, a.m.k. nokkurn veginn á þann hátt. Ætti hitt varðandi hin málefnasviðin þá ekki að vera á svipuðum nótum? Þá þyrftum við aðeins að pæla í því hvernig framsetningin í fjármálaáætluninni speglast við þá heildarstefnu sem er gerð í þingsályktuninni um byggðaáætlun eða fyrir málefnasviðið sjálft.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, þau hækka ekki, hlutfallið má lækka þannig að það séu fleiri á vinnualdri á móti þeim sem eru ekki á vinnualdri. Það er bara fínt. Spurning mín lýtur þá að því hvernig eigi að ná þeim markmiðum af því að við sjáum fram á fjölgun í þeim hópi sem er ekki á vinnualdri. Ef þetta er markmiðið hlýtur að vera einhver aðgerðaáætlun eða stefna sem við ætlum að setja okkur til að niðurstaðan verði önnur en sú hlutfallsbreyting sem við sjáum fram á. Mig langar að vita hverjar þær aðgerðir eru því að ég sé einfaldlega fram á tvo möguleika, annars vegar að aldraðir fari eitthvað annað, og við viljum það ekki, og hins vegar að við förum einfaldlega að flytja inn fólk á vinnualdri.

Ég velti fyrir mér hvaða stærðarhlutföll við erum að sjá og hvernig því er háttað. Ég átta mig ekki á því að það sé hægt að setja hérna fram markmið án þess að aðgerðirnar sem eru á næstu blaðsíðu segi nokkuð um það hvernig (Forseti hringir.) við komumst á þann stað sem viðmiðin og mælikvarðarnir segja til um.