148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi síðara atriðið, hvernig eigi að ná framfærsluhlutfallinu, eiga auðvitað 54 tillögur í byggðaáætluninni að hjálpa til við þessi þrjú meginmarkmið þar sem eitt er að stuðla að sjálfbærri þróun byggða. Ég get vel séð fyrir mér fleiri hugmyndir til þess en hv. þingmaður nefndi, til að mynda að Ísland sé allt orðið ljóstengt. Ljósleiðaravæðing um allt land þýddi að fólk gæti unnið heima hjá sér og þyrfti ekki að flytja um langan veg, það gæti unnið hvar sem er. Annað slíkt verkefni er tillaga um opinber störf án staðsetningar þar sem fólk getur unnið líka í sinni heimabyggð. Fleiri slík verkefni eru í þessum áætlunum.

Það verkefni sem ég veit að öll sveitarfélög og allir landshlutar vinna að daginn út og daginn inn er að búa til sjálfbær samfélög þar sem sé eðlileg endurnýjun íbúanna og þar af leiðandi aldurspíramídinn nokkuð eðlilegur. Við þekkjum að þetta er áskorun. Þetta er verkefni sem hefur verið að þróast í hina áttina. Þess vegna setja menn sér slík markmið og einhver viðmið sem síðan er hægt að mæla.

Varðandi það sem hv. þingmaður byrjaði á, um hvort þetta ráðuneyti væri með eitthvert forskot, held ég að það sé rétt hjá hv. þingmanni. Í þessu ráðuneyti hefur verið unnið í mjög langan tíma, kannski lengst allra ráðuneyta, í svona stefnumótun og langtímaáætlun, sérstaklega í samgönguáætlun, seinna meir í fjarskiptaáætlun og núna er byggðaáætlun komin inn. Þess vegna minni ég á frumvarpið frá ráðuneytinu er varðar samþættingu þessara áætlana við fjármálaáætlunina, bæði í tíma og þannig að það séu tengingar þarna á milli. Tilgangurinn með þeirri umræðu sem við erum með í dag er að fara aðeins ofan í það hvert (Forseti hringir.) ráðuneytið er að fara og hvernig ramminn er. Síðan er það útfært nánar í frumvörpum, þingsályktunartillögum og verkefnum.