148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Samgönguráðherra er hér að tala um samgöngumál. Mig langar að beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra, þá aðallega: Hvar í þessari áætlun er eitthvað um tvöföldun Reykjanesbrautar frá Straumsvík að Kaldárselsvegi? Þetta er fjölfarnasti vegur landsins. Þarna fara um 50 þúsund bílar á sólarhring. Ef við tökum aukninguna á höfuðborgarsvæðinu frá 2016–2017 var hún 8,7%. Hvalfjarðargöngin voru eitthvað svipað, 8,7%. En á Reykjanesbrautinni er 15% aukning. Þarna hafa orðið skelfileg slys. Þetta er einn slysamesti kafli landsins, sérstaklega frá Kaldárseli að Krýsuvíkurvegi. Ég get ekki annað en trúað því að eitthvað verði gert í þessu.

Svo er annað sem þarf að hugsa um. Reykjanesbrautin er stórhættuleg eins og hún er. Það eru komnar raufar í veginn og í mikilli rigningu er þetta stórhættulegur vegur. Þar þarf líka að taka til.

Einnig þarf að koma á bótum á Kjalarnesveg frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum. Við verðum að átta okkur á því að þar sem einbreiðir vegir eru, eins og á Reykjanesbrautinni, er það að fá bíl á móti sér á öfugum vegarhelmingi á 90 km hraða alveg skelfilegt. Ég hef lent í því á 50 km hraða. Hitt er alger hryllingur. Það eru mjög litlar líkur á að þú lifir það af.

Þess vegna spyr ég: Hversu mörg slys þurfa að verða áður en þetta verður gert? Hvar er áætlunin um þetta?