148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið í fyrri umferð og spyrja hæstv. samgönguráðherra nánar út í afstöðu hans í vegtollamálum sem hafa verið nokkuð rædd hér en þau virðast vera að festa sig í sessi sem eitt af lykilatriðum í uppbyggingu í samgöngukerfinu okkar þrátt fyrir að ekki sé kannski mikil umfjöllun um þau í fjármálaáætluninni. En látum það vera.

Veggjöld eru í sjálfu sér ekki svo slæm og raunverulega má segja að notkunargjöld séu í sumum tilfellum sanngjarnari en almenn skattlagning. En ef ákveðið er að fara þá leið þarf að lækka þennan almenna skatt á móti vegna þess að annars erum við bara að tala um hreina skattahækkun. Og það sem meira er, við erum að tala um búsetubundna skattahækkun ef farin verður sú leið að láta ákveðin landsvæði greiða frekar en önnur.

Ég hlustaði á hæstv. ráðherra tala við aðra þingmenn áðan um að gæta yrði jafnræðis meðal landsmanna og ég fagna því. Ég viðurkenni að ég hef ákveðnar áhyggjur af hagsmunum Reykvíkinga í þessu sambandi. Það hefur jú verið þannig að hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um Reykjavík, þegar hann hefur rætt um þetta undanfarið, og löngu tímabærar vegaúrbætur á höfuðborgarsvæðinu og í kringum það. Ég mundi gjarnan vilja fá staðfestingu og óska eftir endanlegri útgáfu. Hæstv. ráðherra verður eiginlega að virða mér það til vorkunnar að hann hefur haft ansi margar skoðanir á þessum málum á ekki mjög löngum tíma.

Mig langar að hnykkja á því hér, til að fá úr því skorið, að verði þessi leið farin þá hafi stjórnvöld hugsað sér að gæta þar jafnræðis. Það verður ekki þannig, eins og komið hefur fram í umræðum undanfarið, og jafnvel hæstv. ráðherra hefur talað um, að Reykvíkingar verði þar látnir borga brúsann umfram aðra landsmenn.