148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki á hvaða ræður eða viðtöl hv. þingmaður hefur hlustað. Ég tel mig hafa haft sömu skoðun allan tímann í þessu máli. Í stjórnarsáttmálanum var ekki minnst einu orði á vegtollahlið inn í Reykjavík eins og fyrirhugað var í ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í á síðasta ári. Þess vegna hef ég sagt að ég væri ekki að vinna að slíku, á engan hátt.

Ég hef hins vegar sagt að verkefnið væri mjög stórt og það hljóti að koma til greina að hugsa það, þó að við setjum allan þungann, og það sé í fyrsta sæti, í hin opinberu fjárlög sem við erum að vinna með í fjármálaáætlun. Ég hef talað um að á næstu þremur árum séum við með 70–75 milljarða í framkvæmdir og viðhald fyrir vegamál í landinu sem eru umtalsverðir fjármunir og langt umfram það sem við höfum séð á undanförnum árum. Þá sé verkefnið stærra og við þurfum þá að leita leiða til þess, hvernig það er gert. Ég hef sagt að við séum að vinna að slíku. Þær útfærslur liggja ekki fyrir enda væru þær þá komnar fram og væru hér til umfjöllunar.

Þar sem gjaldtaka kæmi til greina hefur mér fundist mikilvægast að jafnræðis sé gætt. Taki menn ákvörðun um að flýta tiltekinni framkvæmd sem ellegar yrði farið í eftir fimm eða tíu verða rökin fyrir því að leggja gjald á hana að fólk hafi val um að fara aðra leið. Þetta gildir um allt land.

Talandi um gjaldtöku almennt og notkunargjöld: Í framtíðinni verður gjald ef til vill innheimt með kubbum í bílum og þá greiðir fólk eftir því hvaða vegarkafla það er að fara. Þá mun fólk líka greiða gjald eftir því hversu framkvæmdin er dýr. Satt best að segja eru margar af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar hafa verið hér á höfuðborgarsvæðinu mjög dýrar; sá kafli verður dýr en ekki mjög langur. Ég veit ekki hvernig gjaldið á hvern kílómetra yrði. Það er slíkt samhengi í hlutunum sem menn verða að átta sig á, fari menn alla leið í gjaldtöku tengda notkun mun það að einhverju leyti verða vegna þess hversu dýrar framkvæmdirnar eru.