148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í seinni innkomu minni í þessa umræðu langar mig til að beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra. Veggjöld hafa verið mikið rædd hér í dag og ítrekað hefur komið fram í máli ráðherrans að hann sjái fyrir sér að það verði fær leið að fara í sérstaka gjaldtöku, vegtolla, þar sem önnur leið er fær.

Mér leikur hugur á að vita hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að þetta verði skilgreint. Hvenær er önnur leið fær, hvenær hættir önnur leið að vera fær? Menn keyrðu jú, á bílum til Hafnar í Hornafirði áður en hringvegurinn var kláraður 1974 þó að það sé auðvitað öfgakenndasta dæmið sem mér dettur í hug. Engu að síður er skurðpunkturinn einhvers staðar þarna á milli og þetta held ég að væri mjög áhugaverð pæling að fara í gegnum. Mér leikur hugur á að heyra sjónarmið ráðherrans hvað þetta varðar, hvernig hann sér fyrir sér að þetta yrði skilgreint. Því svo þróast samfélög. Ég er til dæmis ekki sannfærður um að menn sem búa á Akranesi eða í Borgarnesi séu þeirrar skoðunar að Hvalfjörðurinn sé raunhæf önnur leið í dag fyrir þá sem starfa hinum megin fjarðar á þessu sameiginlega atvinnusvæði.

Fyrir 20 árum, tæplega, var hægt að segja: Þarna er önnur leið fær. Svo þróast samfélagið þannig að ekki er hægt að horfa á hlutina með sama hætti. Mér leikur hugur á að vita hvernig hæstv. ráðherra sér það fyrir sér að skilgreina þessa möguleika.