148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir mjög fína spurningu. Það er auðvitað verkefni að útfæra hvernig við ætlum að standa að jafnræði í þessum málum. Hvað þýðir það, hvernig er hægt að skilgreina það hvar önnur leið er? Ég þekki rökin, hef heyrt þau og skil þau mætavel. Þegar menn eiga þann möguleika að fara undir Hvalfjörð þá er það ekki önnur leið að fara að keyra hann aftur eins og gert var fyrir 20 árum eða svo. Það er auðvitað mögulegt að fara á Hornafjörð ef Skeiðará hefði ekki verið brúuð. Það væri önnur leið.

Þetta er akkúrat verkefnið sem við erum að útfæra, hvernig þetta er gert. Eitt af því sem ég gæti séð fyrir mér sem markmið er að hægt sé að tala um styttingu, að ávinningur sé af því að fara hina nýju leið og ávinningur fyrir þjóðfélagið af því að stytta leiðir, minnka útblástur á kolefni og ná þannig betur fram markmiðum okkar í loftslagsmálum.

Það eru nokkrir svona þættir sem ég held að við ættum að hafa til hliðsjónar. Við erum að vinna að því og það mun án efa gerast þegar við náum til botns í þessu. Ég vil ítreka að við höfum sagt að þessar leiðir séu færar. Við erum að skoða þær en þær liggja ekki fyrir sem tillaga hér í dag. Ég mun án efa taka þá umræðu upp hér í þinginu þegar það liggur fyrir.