148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:11]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Mér finnst þau gefa vonir um að þetta sé að fara í framkvæmd, eins og Seyðisfjarðargöngin, ef þau eru talin upp í fimm ára fjármálaáætlun. Mér finnst því að verið sé að gefa í skyn að sú framkvæmd sé hreinlega að fara af stað.

Ég vildi líka ítreka hvort þetta sé raunhæft af því mér kemur mjög á óvart að það sé lækkun í málaflokkinn árin eftir 2021, eftir þetta átak. Árin 2022 og 2023 eru framlög til samgöngumála lægri en árið 2017 vegna þess að nýjum samgöngumannvirkjum fylgir viðhald og rekstur. Eða ætlar ráðherrann að láta þetta allt saman grotna aftur niður?