148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin og ræðum sérstaklega þætti sem snúa að hæstv. samgönguráðherra. Á því sviði eru nokkur málefni sem ég hef áhuga á. Ég vil fyrst og fremst nefna samgöngumál og þar undir vegagerð og hafnargerð og slíkt. Ég ætla að koma með tvær, þrjár spurningar í því sambandi, í mínum tveimur innleggjum hér.

Vegagerð er mjög mikilvæg og brýn í kjördæmi okkar hæstv. samgönguráðherra. Þar eru allar helstu stofnæðar frá Keflavík til Reykjavíkur, frá Reykjavík á Selfoss og austur um til Hornafjarðar, og þarna eru ferðamennirnir. Hver er fjármögnun málefnasviða hæstv. ráðherra, ef við förum yfir það? Árið 2016 32 milljarðar, árið 2017 36 milljarðar, árið 2018 39 milljarðar, árið 2019 43 milljarðar, árið 2020 42,6 milljarðar, árið 2021 42 milljarðar, árið 2022 36 milljarðar, árið 2023 36 milljarðar. — Ég las 36 milljarðar og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Það er sama tala og árið 2017, það er ekkert verið að gefa í.

Þetta lýsir ekki stórátaki í samgöngumálum. Nú er boðað að setja eigi 5,5 milljarða í samgöngumál árlega næstu þrjú árin. Við hverju á að búast, fagnaðarlátum? Nei, á sama tíma og talið er að það þurfi 200–250 milljarða til að koma vegakerfinu í sæmilegt stand á að setja 16,5 milljarða í það sem er 6% af því sem nauðsynlega þarf að leggja í kerfið nú þegar.

Ég ætlaði að spyrja um Landeyjahöfn og einbreiðar brýr líka, ég kem að því í seinna innleggi mínu.