148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Það er ekki eins og þessir 5,5 milljarðar næstu þrjú árin séu einu peningarnir sem fari í þennan málaflokk. Ætli við séum ekki á næstu þremur árum að tala um 70–75 milljarða í framkvæmdir og viðhald og á fimm ára tímabilinu erum við að tala um 124 milljarða í liðinn samgöngur og fjarskipti. Það skýrir að hluta til þessa lækkun á árunum 2022 og 2023 að verkefninu Ísland ljóstengt lýkur árinu þar á undan þannig að það lækkar um einhverjar 500 milljónir þess vegna.

Upphæðin sem fer til framkvæmda og viðhalds er samkvæmt þessari töflu, sem ég veit að hv. þingmaður hefur ábyggilega séð í kynningu á fjármálaáætluninni, á árunum 2022 og 2023 um það bil sú sama og á árinu 2018, kannski örlítið lægri, tæplega 20 milljarðar.

Er það nóg inn í langa framtíð? Ég er ekki viss um það og get verið sammála hv. þingmanni um það. Þess vegna höfum við talsvert verið að ræða aðrar leiðir hér í dag og hvort þær séu færar, t.d. að flýta ákveðnum framkvæmdum sem ellegar myndu verða síðar á dagskrá. Ég held að við þingmaðurinn séum sammála um að þörfin í okkar kjördæmi sé ákaflega brýn, umferðarþunginn hefur aukist hvað mest þar og margir vegir hafa ekki upphaflega verið byggðir upp fyrir alla þá þungaflutninga, hvort sem er með vörur eða ferðamenn, stórar rútur eða fjölgun bíla eins og við höfum séð á liðnum árum. Ég sé ekkert lát á því þannig að ég held að við þurfum að horfa til lengri tíma þegar kemur að uppbyggingu þeirra vega.