148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Klárum þetta. Fyrrum samgönguráðherra, hv. þm. Jón Gunnarsson, tók umræðuna um veggjald og komst sú umræða á verulegt skrið í hans tíð en hefur síðan verið hálfgert bannorð.

Hvað er til ráða? Ástandið er ískyggilegt, vegirnir eru að molna. Ekki er verið að setja neitt í vegagerð sem skiptir neinu máli, miðað við vandamálið. Þá spyr ég: Ætlar hæstv. ráðherra að feta í fótspor fyrirrennara síns og kanna það alvarlega að fara í nauðsynlega framkvæmd um innheimtu veggjalda? Í öðru lagi boðar hæstv. samgönguráðherra í tillögunni til fimm ára að einbreiðum brúm verði fækkað. Og hver er staðreynd málsins? Á þjóðvegi eitt eru 37 einbreiðar brýr. Þær eiga að vera 28 árið 2023, fækkar um heilar níu; þar af fimm í tengslum við brúargerð við Hornafjarðarfljót. Litlu verður Vöggur feginn. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um þetta, hvenær má búast við að Hornfirðingar geti farið frá Reykjavík til Hornafjarðar án þess að aka yfir tugi einbreiðra brúa? Er það á fjórða árþúsundinu?