148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir erum sammála um að það þurfi meira fjármagn í samgöngumál til þess að koma þeim málaflokki í það lag sem við viljum hafa hann. En ég heyri líka, af því að ég átti fyrr í dag orðastað við hv. 2. þm. Viðreisnar sem einnig talaði um hringlandahátt og að ráðherrann segði eitt í dag og annað á morgun, að þingmenn Viðreisnar hafa greinilega ekki verið að hlusta mjög vel á það sem ráðherrann hefur sagt.

Hér hefur ekkert verið útilokað eða lokað á eitt né neitt annað en það sem kom náttúrlega skýrt fram strax í vinnunni við stjórnarsáttmálann um vegtollahlið inn í Reykjavík, þ.e. þar sem bara þeir sem þurfa að keyra inn til Reykjavíkur að sækja þjónustu áttu að greiða vegtolla. Það var ekki inni á borði ríkisstjórnarsáttmálans og þar af leiðandi ekki á verksviði mínu að tala fyrir því, auk þess sem það kom hjá fyrri ríkisstjórn sem hv. þingmaður var reyndar ráðherra í. Ég man ekki eftir því að það hafi verið gríðarlegur stuðningur við þau áform, hvorki frá þingmönnum Viðreisnar né öðrum þingmönnum í þeirri ríkisstjórn.

Ég sagði hins vegar frá upphafi að verkefnið væri mjög stórt og ég útilokaði ekki aðrar leiðir. Síðan hef ég rætt það margoft hér í þingsal og hef reyndar gert það margoft í dag, þannig að ég tel að hér sé ekki verið að reisa neinar skýjaborgir. Það þarf einfaldlega að hraða uppbyggingu, fara í sókn. Við gerum það með viðbótarframlagi næstu þrjú árin. Á næstu fimm árum hafa ekki verið settir meiri fjármunir ár eftir ár í 20 ár. Þó að það hafi verið einstaka ár á því tímabili sem hafi farið fram úr þessum framlögum þá er það aðeins í tvö ár á síðastliðnum (Forseti hringir.) 20 sem meiri fjármunir eru settir í uppbyggingu í samgöngumálum en næstu þrjú.