148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.

Í fjármálaáætlun er vikið ögn að málum sem ég veit að ráðherra ber líka fyrir brjósti. Mig langar að tæpa hér ögn á því. Það er hrakandi lestrarkunnátta og lítill árangur sem enn hefur komið út úr þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð af yfirvöldum menntamála í þeim efnum. Í fjármálaáætlun er talað um að til standi að halda áfram því starfi sem hefur farið fram á grundvelli hvítbókar, læsisverkefninu svokallaða, og talað um að fram fari mat á þessu verkefni á vormánuðum 2018, þ.e. væntanlega núna. Ég vænti þess að það verði gagnrýnið endurmat.

Sér kapítuli sem mig langar svo að nefna að lokum er málefni Listaháskóla Íslands og úrbætur á því neyðarástandi sem þar ríkir í húsnæðismálum. Boðuð er í fjármálaáætlun þarfagreining og fjármögnun virðist í höfn til að efna til samkeppni, jafnvel að grafa grunn. Við þekkjum grunna. Ég vona að við séum með þessu ekki að búa til holu íslenskra lista.