148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kom ekki að máltækniverkefninu. Það er að fullu fjármagnað. Við hv. þingmaður þurfum að fara aðeins betur yfir þessar tölur, en mér skilst og hef barist fyrir því að við séum með þetta að fullu fjármagnað. Ef við náum ekki að sinna þessum þætti vel, þ.e. að við getum talað við tækin okkar á íslensku, er tungan okkar í ákveðinni hættu. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að fjármagna þetta og gera í mjög góðu samstarfi við þá sem best þekkja til varðandi þennan málaflokk.

Varðandi listgreinar og skapandi greinar er alveg ljóst að til framtíðar er vöxtur þessara greina að verða nokkuð mikill. Umgjörðina í kringum þær þurfum við að styrkja. Ég tel að það sé eitt af þessum stóru málum sem við þurfum að fara inn í til þess að við náum ákveðinni fótfestu. Við höfum verið að gera vel varðandi menningu. Ég er sammála hv. þingmanni að það má ekki vera þannig að Listaháskólinn sé allt of aftarlega í röðinni hvað varðar uppbyggingu. Það er ekki í þessari fjármálaáætlun en það er fullur hugur í okkur að vinna að útboði er varðar hönnun á næstu misserum.