148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mjög góða fyrirspurn, sér í lagi að vekja athygli á þessu orðalagi. Það sem átt er við er að fleiri útskrifist á framhaldsskólastiginu. Það sem hefur verið að gerast er að í kringum 45–48% hafa verið að útskrifast af framhaldsskólastiginu. Við stefnum að því að hlutfallið verði í kringum 60% á næstu árum þannig að þetta á við um framhaldsskólastigið.

Ég vil einnig nefna að það sem við erum að gera til að efla verk-, iðn- og starfsnám er einkum þrennt. Það er í fyrsta lagi eins og hv. þingmaður benti á að við þurfum að einfalda allt stjórnskipulag er tengist iðn- og starfsnámi í landinu. Við höfum núna sett á laggirnar starfshóp sem hefur það hlutverk að einfalda þetta stjórnskipulag og við erum í mjög góðu samstarfi við atvinnulífið til þess að ná árangri í þessu. Ég mun fá tillögur þess efnis eftir tvo mánuði.

Annað sem við vinnum að er gerð og innleiðing rafrænnar ferilbókar sem er líka til þess fallin að einfalda stjórnsýslu og einfalda aðgengi nema að iðn- og verknámi í landinu.

Við stefnum líka að því að fjölga nemum í iðn- og starfsnámi, bæta allt aðgengi. Núna eru í kringum 12% grunnskólanema sem skrá sig í þetta nám. Vilji er til þess að hækka þetta hlutfall í nokkrum skrefum. Ég verð að segja að ég tengi þetta háa hlutfall brotthvarfs í skólakerfinu líka við það að nemar átta sig ekki alveg á því hvaða starfsnám, iðnnám og tækninám er í boði. Við þurfum að gera mun betur til þess að kynna það fyrir nemum á Íslandi.