148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega við þessi svör. Ég bjóst nú við þeim góðum. Ég fagna því að rafræna bókin sé komin á dagskrá, virkilega gott mál þar sem þetta var ein af niðurstöðunum sem kom út úr úttektinni sem var gerð árið 2016. Ég held að það þurfi einmitt að velta því svolítið upp hvað við erum að segja, hvaða skilaboð við sendum út í samfélagið af því að við höfum svolítið klifað á því að hærra menntunarstig sé málið. Það hefur gefið skilaboð um að við viljum setja alla í gegnum bóklegan framhaldsskóla þannig að allir komist upp á, segjum við, háskólastig.

Ég held að við þurfum aðeins að vinda ofan af þessari þróun. Hefur komið til tals, eins og við Miðflokksmenn vildum gera, að eyrnamerkja fjármagn í iðn- og tækninám? Það er það sem ég velti fyrir mér. Síðan veit ég að það er vilji til að breyta kynjadreifingu á milli starfsnámsins. Hvað er ráðherra með í pípunum þar? Er það eitthvað sem starfshópurinn mun taka tillit til í samvinnu við atvinnulífið eins og hún nefndi? Ég tel að það þurfi að gera svo mikið og það þurfi að gera núna og það þarf að byrja fyrr. Ég ímynda mér, eins og ráðherra kom inn á, að það sé ekki auðvelt fyrir grunnskólanemendur að gera sér grein fyrir hvað gerist þegar upp í framhaldsskóla er komið. Þess vegna vil ég taka undir þessi orð. Það þarf að gera meira fyrr fyrir þessa krakka, jafnvel fyrir krakka á grunnskólastigi, segjum í 5. bekk. Ekki síðar.