148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að skoða þau framlög sem koma fram í fjármálaáætlun á málefnasviðum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Til að byrja með myndi ég vilja spyrja hvert kostnaðarmatið á Húsi íslenskra fræða er. Það hefur dálítið áhrif á þann pening sem fer í háskólastigið. Í öðru lagi sé ég að eina markmið stjórnvalda í fjölmiðlun er að lækka skatta niður í 11%. Samt er sú skattalækkun ekki hluti af skattstefnu stjórnvalda samkvæmt fjármálastefnu. Þá spyr ég: Til hvers þarf ráðherra 700 milljónir aukalega við þær 400 milljónir sem væru ákveðin aðhaldskrafa sem á að skila á því tímabili? Ef 2% aðhaldskrafan væri reiknuð út öll árin myndi hún skila sér í heildarupphæð upp á 400 miljónir á lokaári fjármálaáætlunarinnar. Það munar þarna 1,1 milljarði sem er hækkun á fjárframlögum. En það er ekki útskýrt með neinum aðgerðum hvað eigi að gera við þennan pening. Það vantar.

Ég myndi vilja fá að sjá, í markmiðum og stefnu stjórnvalda, útskýringar á því þegar á að auka fjárframlög til einhvers málefnasviðs. Það vantar. Þess vegna spyr ég.

Í fjárframlögum til menningar og lista, íþrótta- og æskulýðsmála er upphæðin milli 2019 og 2023 400 milljón kr. lækkun. Hæstv. ráðherra sagði í stefnuræðu að við vildum halda áfram að styðja við íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Ef það kemur ekki fram á málefnasviði menningar, þar sem fjárframlög eru lækkuð, hvar kemur það þá fram? Af hverju er þá verið að lækka fjárframlög til menningar?