148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi eru 4,5 milljarðar í fjölmiðla árið 2029, en 2023 eru þeir 5,2. Það er hækkun um 700 milljónir. (Gripið fram í.) í fjölmiðla, en það eru ekki sett nein markmið. Nú bætir hæstv. ráðherra því við að það sé verið að minnka tekjurnar sem eru þannig séð tengdar þessum málefnasviðum, 800 milljónir. Þá er allt í einu komið 1,5 milljarða kr. gat sem er ekki útskýrt í fjármálaáætlun. Ef ég á að fara að samþykkja fjármálaáætlun, sem maður veit náttúrlega ekkert hvernig fer, myndi ég alla vega vilja fá útskýringar á þessu.

Varðandi menningu, listir, íþróttir og æskulýðsmál eru sett fram þó nokkur markmið, en á lægri fjárframlögum. Mér finnst dálítið óþægilegt að heyra að þetta eigi að vera fjármálaáætlun til fimm ára. Ef það tekst að ná inn aukafjárframlögum á næsta eða þarnæsta ári ætti sú von að koma fram núna, ekki eftir 2 til 3 ár, þó að hún hafi ekki tekist fyrir 2019. Miðað við orð hæstv. ráðherra líður mér pínulítið eins og það sé ekkert að marka 2020 plús tölurnar ef það er bara þannig að þær verða endurskoðaðar gagngert, mögulega, í seinni eða næstu fjármálaáætlun. Ég myndi alla vega vilja að sá háttur væri ekki hafður á. Það koma upp ný verkefni eftir því sem fram líða stundir. Ekkert mál með það. Það eru sett markmið í þessum málaflokki en samt er dregið úr fjárframlögum.