148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessar 700 milljónir í aukningu þarna er innheimta á útvarpsgjaldi, það er skýringin. Ég tek undir með hv. þingmanni, við hefðum kannski getað orðað það með öðrum hætti eða sett betri skýringu. En hér með útskýri ég það.

Hvað varðar menningu, listir, íþróttir og æskulýðsstarf: Það sem við erum líka að gera varðandi menningarþáttinn, en við sjáum þess ekki merki í fjármálaáætluninni, er að lækka tekjugrunninn er varðar virðisaukaskatt á bækur. Þar með erum við auðvitað að efla menningu í landinu með því að auka og styðja við bókaútgáfu. Ég held að margföldunaráhrifin af því verði umtalsverð. Þetta á líka við er varðar fjölmiðla; við erum að lækka virðisaukaskattinn og munum fara í aðgerðir. Það má heldur ekki gleyma því að gert hefur verið ráð fyrir þessu á tekjuhliðinni. Þrátt fyrir að málefnasviðið líti út eins og það sé ákveðin lækkun er í raun hækkun í gegnum minnkandi tekjur á málefnasviðið. Ég er auðvitað sem fagráðherra ánægð með það.

Hins vegar, eins og hv. þingmaður þekkir, vill maður alltaf gera betur þegar maður hefur metnað fyrir sinn málaflokk. En það er rétt, þetta er mjög brýnt og auðvitað sýnir þessi áætlun inn í framtíðina og hvernig við hugsum þetta. En hv. þingmaður verður hins vegar að fyrirgefa þó að ráðherrann hafi alltaf ákveðnar hugmyndir um hvernig megi bæta og gera betur fyrir sinn málaflokk.