148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með stóru myndina í málaflokki hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Mig langar að fagna sérstaklega þeirri áherslu sem lesa má í textanum með fjármálaáætluninni sem lýtur að því að bæta stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku, og raunar á öllum skólastigum, og öllu því er snýr að menntun fólks af erlendum uppruna. Mér finnst t.d. mjög mikilvægt að þar sé líka talað um framhaldsfræðslu fyrir innflytjendur. Þar held ég að skipti sérstaklega miklu máli ein mjög lítil og sakleysisleg grein sem fjallar um hvers konar námsleiðir gætu sérstaklega mætt þörfum kvenna af erlendum uppruna. Ég held að þetta sé alveg rosalega mikilvægt til þess að fólk af erlendum uppruna og fólk með annað móðurmál en íslensku geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Það er hins vegar á einum stað þar sem mér finnst að þarna mætti gera getur, það er í íþrótta og æskulýðsmálum og menningu og listum, þó að vissulega sé talað um að leggja sérstaklega áherslu á barnamenningu og þátttöku barna af erlendum uppruna í menningarstarfi.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún sé sammála mér í því og vilji taka utan um það að við þurfum auðvitað að auka almenna þátttöku fólks af erlendum uppruna á þessu sviði. Þar getur íslenskt samfélag svo sannarlega notið góðs af eins og þeir einstaklingar sem þar um ræðir.