148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ráðherra hóf ræðu sína á því að segja: Endurreisn íslenska menntakerfisins er hafin. Í þessu felast mikil fyrirheit af hálfu ráðherra og með þessu leggur hún sig fram um að skapa miklar væntingar til sinna starfa og sinna samstarfsmanna, þannig að til hennar hljóta að verða gerðar miklar kröfur í framhaldinu.

Við búum svo vel að eiga marga frábæra skóla í okkar landi og margt ákaflega mikilhæft og hæfileikaríkt skólafólk. Samt er það svo, frú forseti, að þess sjást merki að það eru brotalamir í skólastarfinu. Ég vil gera að sérstöku umræðuefni stöðu drengja, pilta og ungra manna í skólakerfinu. Tölur um það að ungt fólk og þá einkanlega drengir komi illa læsir eða með slakan lesskilning út úr grunnskóla eru sláandi svo ekki sé meira sagt. Tölur um brottfall pilta á framhaldsskólastigi eru það sömuleiðis. Það eru fleiri vísbendingar um að ungir karlmenn, drengir, piltar og ungir menn, finni sig ekki í skólakerfinu.

Ég vil þess vegna spyrja ráðherra: Telur ráðherra að það sé á sínu færi og á sínu verksviði að gangast fyrir úttekt eða leit að skýringum á því af hverju drengjum eða ungum mönnum vegnar síður í skólakerfinu en (Forseti hringir.) ungum konum? Ef þessar tölur væru á hinn veginn, ef það hallaði á hitt kynið með þeim hætti sem hér er, þá (Forseti hringir.) er ég hræddur um að það heyrðist nú víða hljóð úr horni. Ég hef áður leyft mér að segja: Þessi hópur á sér engan (Forseti hringir.) málsvara í íslensku samfélagi.

(Forseti (BHar): Ég vil biðja hv. þingmenn um að virða tímamörkin.)