148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem er mjög góð. Það er ekki svo langt síðan styttingin á framhaldsskólastiginu átti sér stað og nú er að koma í ljós hver áhrifin eru og þetta er eitt af því sem nefnt er. Það verða ákveðnar áskoranir sem felast í að takast á við þær breytingar sem koma í kjölfarið.

Eitt það jákvæða við styttinguna er að fjárframlög á hvern nemanda eru að hækka umtalsvert. Við verðum komin í kringum 1,6 milljónir árið 2020 þannig að umgjörðin í kringum framhaldsskólana hvað þetta varðar er að styrkjast. Ég vonast auðvitað til þess og vil vinna með skólameisturum og skólastjórnendum á landsbyggðinni í þessu máli. Ef það eru frekari hættur á ferð varðandi minna námsframboð þá þurfum við að taka á því og ég vil vera í mjög virku samtali við þá sem stjórna þessum skólum til þess að koma með ábendingar til okkar þannig að við getum beint fjármunum í þá veru. (Forseti hringir.) Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, jafnt aðgengi að námi skiptir öllu máli.